Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

24 March 2008

Úrskurður enn ekki kominn og um málefnið

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 01:39

Sumir hafa verið að spyrja mig um gengi málsins og fannst mér rétt að benda á að dómendur fyrir Héraðsdómi Reykjaness eru enn að úrskurða í málinu. Persónulega efast ég um að hann verði opinberaður fyrr en um næstu mánaðarmót. Úrskurðinn ætti að vera tilbúinn í síðasta lagi 8. apríl (2008).

Við réttarhöldin tók ég eftir því að stefnendur málsins vissu mjög lítið um virkni vefsins. Það er allavega sú tilfinning sem ég fékk þegar málið var tekið fyrir þann 11. mars. Til dæmis spurði Hróbjartur, lögmaður stefnenda, um flokkun deiliskráa og var það eins og hann héldi að stjórnendur sæju sjálfir um að flokka þær en hið rétta er að notendur gerðu það sjálfir og virtist svarið koma honum á óvart. Síðan komu þó spurningur um hverjir settu upp flokkunarviðmiðin en stjórnendur gerðu það í sameiningu. Margar spurninganna fylgdu þessari braut og var það eins og hann væri að frétta hlutina í fyrsta skiptið frá mér. Sömu sögu má segja um lýsingarnar sjálfar en ég verð því miður að nefna að hann misskildi alveg svarið mitt en það er alveg skiljanlegt miðað við að hann hefur ekki mikla tækniþekkingu að baki sér. Það varð til þess að hann hélt að vera lýsinganna inni á torrent.is voru háðar vilja og kröfum stjórnenda. Hann spurði hvað gerðist þegar stjórnandi samþykkti ekki lýsingu á deiliskrá og ég svaraði “ekkert” og því miður hélt hann að afleiðingin væri sú að lýsingin yrði ekki vistuð á torrent.is. Því miður gafst mér ekki færi á að leiðrétta þennan misskilning þar sem hann nefndi þetta fyrst í málflutningnum sínum og ég var þá búinn í skýrslutöku. Svo virtist vera að hann hafi haldið að hlutverk stjórnenda á torrent.is hefði verið meira en það var í raun.

Ástæður fyrir því að hafna kröfum þeim sem komu í bréfi nokkurra rétthafasamtaka sem dagsett var 11. október 2006 eru margþættar. Í fyrsta lagi var eina krafan sú að loka vefsvæðinu torrent.is en mér fannst hún of víðtæk og óréttlát miðað við það sem stóð í bréfinu. Þar komu einungis fram yfirlýsingar án þess að tilraun sé gerð til að sýna fram á réttmæti þeirra. Á þeim tíma höfðu engar tilkynningar borist frá rétthöfum um að fjarlægja efni og því enginn staðfestur grundvöllur til að halda því fram að notendur hefðu verið að brjóta á höfundarrétti í stórum stíl. Ef álíka bréf hefði borist netþjónustu eins og Símanum myndi það falla fyrir daufum eyrum. Um það bil 10 tilkynningar hafa borist um að fjarlægja efni frá stofnun hans og er það nokkuð lítið hlutfall þeirra deiliskrá sem hafa verið sendar inn. Í bréfinu er hvorki boðið upp á nein sáttaúrræði né hvatt móttakanda til að hafa samband við sig til að ræða nánar um málið. Ákvað samt sem áður að hafa samband við Guðbjarna Eggertsson hjá Lögmönnum Laugardal rétt eftir móttöku bréfsins – umslagið er frá þeim og hann ritaði undir bréfið – en ritarinn sagði að hann væri ekki við og ég skildi eftir skilaboð en hann hafði ekki samband aftur.

Ákvað að framkvæma smá útreikninga á hlut verslana á hverjum tónlistardisk þar sem Gunnar Guðmundsson var svo indæll að nefna að heildsöluverðið væri um 1000 krónur. Samkvæmt skifan.is kostar diskurinn Tímarnir okkar með Sprengjuhöllinni 1999 kr. og til einföldunar gerum við ráð fyrir að heildsöluverðið í þetta skiptið sé 1000 kr. og það sé innifalinn virðisaukaskattur heildsala. Skífan þarf eingöngu að borga virðisaukaskattinn af álagningunni en fær vsk. af innkaupaverðinu endurgreiddan. Álagningin er 999 krónur og þegar 24,5 % vsk. er dreginn frá (um 19,68% bakreiknað) er hlutur Skífunnar 802 krónur fyrir hverja sölu. Hins vegar liggja ekki fyrir upplýsingar um kostnað Skífunnar að baki hverri sölu og hversu mikið af þessum 802 kr. þeir geta haldið sem hagnaði. Ég fer ekki oft í Skífuna en þegar það gerist hef ég oftast séð smá biðröð við afgreiðslukassann. Með þessu er ég ekki að gefa í skyn að það sé í lagi að dreifa höfundarréttarvörðum eintökum án leyfis rétthafa heldur er boðskapurinn sá að verknaðurinn er ekki að bera þau merki um að Skífan sé í taprekstri vegna hans.

Með þetta í huga ber einnig að ræða um myndbandaleigurnar og taprekstur þeirra. Ég man eftir þeim tíma sem ég fór reglulega í hverfissjoppuna sem leigði einnig út myndbönd og ræddi stundum við eiganda staðarins. Hann sagði mér að hann þyrfti að greiða yfir 5000 krónur fyrir hverja VHS spólu til útleigu. Hann þyrfti því að leigja hverja spólu út í fleiri tugi skipta til að ná hagnaði en það gerðist sjaldan. Þetta var fyrir um 6 árum síðan og áður en ‘DC-skráarskipti’ urðu vinsæl á Íslandi. Einnig er einn vinur minn sonur fyrrverandi eiganda myndbandaleigu úti á landi en samkvæmt honum vissi faðir hans að myndbandaleigur væru á leiðinni út og hafði vitað það í fleiri ár. Ég tek undir þau orð og er það greinilegt miðað við markaðsaðstæður síðastliðin ár. Útleiga á mynd kostar mikla peninga í dag og hefur jafnvel hækkað eftir því sem það hefur liðið á árin. Í sumum tilfellum kostar það nokkurn veginn jafnmikið að kaupa myndina en að leigja hana í 2-3 skipti sem hefur einnig þann kost að maður þarf ekki að skila henni næsta dag eða standa í sektum ef það gleymist að skila myndinni. Þetta á sérstaklega við um barnamyndir. Ótalið er að fólk er að finna aðrar tegundir af afþreyingu og eru tölvuleikirnir World of Warcraft og Eve Online dæmi um þær. Það er því mjög hentugt að kenna torrent.is um tapreksturinn í stað þess að viðurkenna að viðskiptamódelið var að deyja út hvort sem er.

Í skýrslutöku Snæbjarnar Steingrímssonar, framkvæmdastjóra SMÁÍS, kom einnig fram að enginn rekstrargrundvöllur væri fyrir bíó úti á landi og því treystu eigendur kvikmyndasamsteypanna sér ekki til þess að koma á fót nýjum kvikmyndahúsum úti á landi og þeir hafi því neyðst til að leggja sum þeirra niður. Sagði hann einnig að það væru einungis þrjú kvikmyndahús (á Íslandi) rekin utan höfuðborgarsvæðisins en þau eru í Keflavík, á Akureyri og síðan á Selfossi. En er réttilegt að kenna torrent.is um það? Það ætti að vera þekkt staðreynd að rekstur kvikmyndahúsa er ekki hagkvæmur í litlum bæjarfélögum og gæti verið þar í besta falli lítill salur sem væri samnýttur annarri starfsemi. Gróflega séð gildir það að eftir því sem bæjarfélagið hefur færri íbúa, því hærra hlutfall þeirra þarf að koma reglulega í bíóið ef reksturinn á að borga sig. Hvort bíóin úti á landi hafi hætt rekstri útaf torrent.is eða vegna einhvers annars hef ég ekki hugmynd um. Mér finnst þó rangt að kenna torrent.is um slíkt án þess að sanna slíkt orsakasamhengi en þess má geta að það eru fleiri staðir á hinu víðfræga Interneti.

Í anda þess að þessi færsla fjallar um meint tap nokkurra rétthafa á Íslandi, þá vil ég benda á nokkra vefi þar sem má niðurhala verkum:
jamendo.com <– Næstum 8 þúsund tónlistaralbúm.
archive.org/details/movies <– Hreyfimyndir hjá Internet Archive. Rétt yfir 112 þúsund myndskeið.
gutenberg.org <– Project Gutenberg. Meira en 20 þúsund fríar bækur.

Skaða þessir vefir hag tónlistarverslana, myndbandaleiga og bókabúða? Já, mögulega. Bókabúðir verða auðvitað af sölu ef tilvonandi lesandi ákveður frekar að niðurhala bók af Project Gutenberg en að kaupa eina af þeim. Microsoft verður mögulega af sölu ef að tölvunotandi ákveður frekar að setja upp annað stýrikerfi. Ég veit ekki um neinar rannsóknir sem að sýna hversu mikinn skaða slíkt val neytanda hefur á sölu verka út í búð en það er samt sem áður eðlileg samkeppni sem á í hlut – nema viðkomandi rétthafar vilji nota skattpeningana okkar og réttarkerfið til þess að hindra slíka samkeppni.

Mér var sagt að ég ætti ekki að kvarta yfir einhverju nema bjóða fram lausn. Því miður er ekki mikið um lausnir sem rétthafar vilja framkvæma. Ég hef einnig reynt að bjóða upp mögulegar lausnir í ræðu og riti en fáir virðast ansa þeim. Ein öflugasta markaðslega lausnin er auðvitað að bjóða upp á hluti sem að ‘sjóræningjarnir’ geta ekki, annaðhvort vegna kostnaðar eða umstangs, en eru þó ódýrir í fjöldaframleiðslu. Þetta er þó ekki í boði fyrir allar tegundir verka og stundum geta tækniframfarir orsakað að dreifingaraðilar þurfa að vera einu eða fleirum skrefum framar en þeir sem vilja brjóta á rétti þeirra. Kvikmyndahús bjóða til dæmis upp á risaskjá þar sem mynd er varpað í ótrúlega fínum gæðum en þó vill svo til að sumt fólk metur að ókostirnir vegi meira en kostirnir. Eigendur kvikmyndahúsa hafa því um tvo kosti að ræða en sá fyrri er að styrkja þá kosti sem eru þá þegar svo þeir fara fram úr ókostunum en sá seinni er að finna út og útrýma ókostunum eða draga úr þeim. Það sama má heimfæra á tónlistarsölu, áskriftarsölu fyrir sjónvarp, bóksölu og ýmsar aðrar dreifingarleiðir sem að byggjast á höfundarréttarvörðum verkum. Ef dreifingaraðili rekst á það að fólk vill frekar ná í verkin af Internetinu en að kaupa það hjá honum á ekki einungis að kenna þeim sem standa að dreifingunni, heldur skoða hvað sé að misfarast í sinni eigin dreifingaraðferð frekar en að ráðast á þá sem standa fyrir gjörningnum. Í staðinn ætti hann að nálgast persónuna og spyrja hana (á vinsamlegu nótunum) af hverju hún sé að dreifa verkunum og af hverju fólk kjósi að ná í það af netinu en að kaupa hjá sér. Þessa vitneskju gæti hann notað til að bæta núverandi aðferð. Það eru aldagömul mistök að ráðast á nýjar aðferðir til að gera hlutina betur frekar en að læra af þeim. Forðist að endurtaka þau (of oft).

En hverjir eru að fara rétta leið? Það eru auðvitað netleikirnir eða hinir svonefndu MMORPG leikir og sem dæmi má taka Eve Online og World of Warcraft. Tekjur framleiðenda liggja þá ekki í kaupum á leiknum sjálfum, heldur í áskriftinni. Því miður þarf að kaupa World of Warcraft dýrum dómum út í búð áður en hægt er að nota hann á netinu en ástæðan fyrir því er sú að framleiðendurnir gerðu þau ‘mistök’ að semja við rangan aðila. Eve Online er þó betri í þessum efnum þar sem leikurinn sjálfur er í boði án endurgjalds til niðurhals af vefnum þeirra en hann er þó ónothæfur án alvöru áskriftar eða til prufu (trial subscription). Í báðum tilvikunum eru báðir aðilar að bjóða upp á eitthvað sem er ómögulegt án mikils tilkostnaðar fyrir ‘sjóræningjana’. Leikirnir bjóða síðan upp á hluti sem að afar erfitt er að afrita, mannlega þáttinn, þar sem hver manneskja í leiknum upplifir sjálfa sig sem meðlim í stóru samfélagi. Þetta byggist auðvitað á því sem kallast ‘Network effect‘ þar sem gagn leikjanna eykst eftir því sem að fleiri fara í áskrift. Gæði og skemmtanagildi leikjanna skiptir auðvitað höfuðmáli en viðskiptamódelið byggist á því að fólk greiði fyrir áskriftartímabilið frekar en hugverkið sjálft. Á móti er auðvitað þrýstingur á hönnuði leiksins til að þróa og viðhalda leiknum áfram ef þeir vilja fá inn tekjur en það orsakasamband er auðvitað eðlilegt undir slíkum kringumstæðum. Einnig er þetta gott fyrir sköpunina en framleiðandinn fær þá hvata til að hafa starfsfólk í vinnu sem vinnur í að fatta upp á nýjum hlutum fyrir leikinn en hvatning til frekari sköpunar er einmitt einn höfuðtilgangur höfundarréttar.

Hvað getum við svo lært af þessu? Fyrst og fremst borgar sig ekki að reyna að beygja vilja neytandans með valdi. Réttara væri að aðlagast vilja neytandans að sanngjörnu marki. Alvöru markaðsrannsóknir drepa varla rétthafana og gætu hjálpað þeim til langframa litið. Það færi síðan eftir efnahag hvers og eins hversu ítarlegar þær yrðu en í versta falli er hægt að framkvæma litlar kannanir með því að spyrjast fyrir á förnum vegi. Ef eitthvað gengur ekki upp, finnið orsökina og af hverju hún hefur áhrif á velgengni þína. Með þá þekkingu undir höndum, reynið að vega á móti orsökinni eða leysið úr henni á sem hagkvæmastan hátt. Sum af þessum ráðum má jafnvel aðlaga til að nota í hinu daglega lífi með smá útskiptingum á orðum. Þetta er ekki svo erfitt í framkvæmd, það þarf einvörðungu viljann til þess.

1 Comment »

  1. Mig langaði bara að bauna því inn að fullt verð á mynd til videoleigu, er á bilinu 5.000 til 10.000, eftir útgáfufyrirtæki og “stærð” myndar. Allar “alvöru” myndir kosta 9.900 án afsláttar. Sum fyrirtæki (Eins og Snæland og Bónusvideo) fá magnafslátt, en þá kostar hver einasta mynd 6.700 krónur. Meðal videoleiga er að eyða um milljón á mánuði í myndir, og þarf að leigja út um 1600 myndir á mánuði, eða um 55 myndir á dag, bara til að borga kostnaðinn af myndunum, fyrir utan allan annan rekstrarkostnað og þá grisjun sem verður þegar myndum er stolið eða þær skemmast. Hver einasta mynd þarf að leigjast 12 sinnum til að borga sjálfa sig, og því miður eru mjög margar þeirra svo lélegar að þær ná því ekki einu sinni. Þær videoleigur sem eru ennþá til, eru augljóslega að ná að standa undir þessu (mestmegnis með hárri álagningu á sælgæti, gos og snakk) en það er langt því frá að það sé einhver stórkostlegur afgangur af því. Allir sem reka videoleigur og hafa gert í einhvern tíma, eru búnir að sjá hvað Videobransinn hefur dregist saman mjög JAFNT og þétt gegnum árin, og kenna menn aðallega því um að nú getur fólk nálgast þessar myndir í Hagkaup á 990 krónur um mánuði eftir að þetta kemur út, sem og til dæmis allar barnamyndir eru gefnar út samdægurs í sölu og leigu. Barnafólk leigir ekki myndir lengur… það kaupir þær. Ég er sjálfur búinn að vinna við og reka videoleigur í 15 ár, og ég get sagt ykkur hér og nú að niðurhal er ekki stærsta orsökin fyrir þessu.. það er einfaldlega þjóðfélagslegar breytingar, Sjónvarp yfir ADSL, og óstjórnlega heimskt útgáfukerfi myndrétthafa, með niðurhalið í fjórða sæti.

    Comment by BizNiz — 24 March 2008 @ 02:54

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

You must be logged in to post a comment.

Powered by WordPress